Erlent

Fjölmargir gabbaðir á Netinu

Fjöldi Íslendinga hefur orðið fórnarlamb skipulagðrar, alþjóðlegrar glæpastarfsemi, með því einu að láta gabba sig á Netinu. Íslendingar notfæra sér gjarnan uppboðsvefi á borð við eBay og kaupa þar alls kyns varning, eins og maður sem fréttastofa Stöðvar 2 hafði spurnir af. Hann bauð í tjaldvagn á Netinu en annar bauð betur og hreppti hnossið. Skömmu síðar barst Íslendingnum tölvupóstur þar sem honum var greint frá því að hæstbjóðandi hefði ekki getað staðið við boðið sitt og honum var því boðið að kaupa vagninn í staðinn sem hann og gerði. Tölvupóstinum fylgdu leiðbeiningar um hvernig ætti að greiða fyrir vagninn, fjögur þúsund dollara eða sem nemur 250 þúsund krónum, án þess að fara í gegnum greiðslukerfi eBay. Það gerði maðurinn grunlaus en hefði betur sleppt því því að síðan hefur hann ekkert heyrt og engan tjaldvagn fengið. Hann var fórnarlamb svindls og ekki það fyrsta. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar var um tugur mála af þessu tagi kærður til lögreglunnar í fyrra og nokkur á þessu ári. Ítrekað hefur verið varað við svindli af þessu tagi. Bæði hefur ríkislögreglustjóri sent út viðvaranir við pósti þar sem fólk er beðið um að gefa upp krítarkortanúmer og leyninúmer eða greiða beint inn á einhverja reikninga og eBay varar viðskiptavini við því að greiða utan greiðslukerfis fyrirtækisins. Erfitt er að upplýsa glæpi af þessu tagi þar sem smáhlutir eins og meint tjaldvagnakaup geta tengt anga sína um alla Evrópu og enda oft austan gamla járntjaldsins. Og þó að ekki sé um háar upphæðir að ræða snúast svona mál engu að síður um skipulagða, alþjóðlega glæpastarfsemi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×