Erlent

Vill stuðning við nýja ríkisstjórn

Palestínska þingið frestaði því þriðja daginn í röð að greiða atkvæði um nýja ríkisstjórn Palestínu eftir að Ahmed Qurie forsætisráðherra mistókst að tryggja sér stuðning meirihluta þingsins við tillögu að nýrri ríkisstjórn. Andstæðingar Quries, sem Jassir Arafat skipaði í embættti forsætisráðherra, vilja meiri endurnýjun í ríkisstjórnina en Qurie hefur haldið tryggð við marga úr herbúðum Arafats sem tengjast spillingu hans. Svo gæti farið að Qurie þyrfti að segja af sér takist honum ekki að fá palestínska þingið til að samþykkja ríkisstjórn sína, en gerð hefur verið krafa um meiri fagmennsku en í tíð Jassirs Arafats því Mahmoud Abbas, eftirmaður Arafats í forsetastóli, vill ráða niðurlögum spillingar innan palestínska stjórnkerfisins um leið og hann leitar friðarsamninga við Ísraela. Stuðningsmenn Quries hafa ásakað samstarfsmenn Abbas innan Fatah-hreyfingarinnar, sem ræður yfir tveimur þriðju af þingsætum á palestínska þinginu, um að reyna að koma Qurie frá völdum. Abbas hefur ekki tjáð sig um málið en greint er frá því í ísraelska dagblaðinu Haaretz að hann gæti ákveðið að víkja Qurie úr embætti á morgun og skipað nýjan forsætisráðherra sem yrði falið að mynda nýja stjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×