Innlent

Mótmælendur eltir um landið

Tíu mótmælendur eru nú staddir við Mývatn að sögn Ólafs Páls Sigurðssonar, eins mótmælendanna. Hann segir tvo lögreglubíla fylgjast með þeim og að aðeins annar þeirra sé merktur. Í nótt hafði hópurinn viðdvöl við Jökulsá á Fjöllum þar sem þau slógu upp tjaldbúðum fyrir nóttina. Ólafur segir ómerktan sendiferðabíl á vegum lögreglunnar hafa verið einungis nokkra metra frá þeim í nótt. Honum mislíkar að svo grannt sé fylgst með þeim og vill meina að brotið sé á rétti þeirra. Hann vill ekki gefa upp hvert ferðinni er heitið og segir að mótmælum verði haldið áfram. Hluti hópsins er kominn til Reykjavíkur og segir Ólafur fólk úr þeirra röðum vera dreift um allt land. Hann vill þó ekki segja hvar af ótta við að gefa lögreglunni upplýsingar í gegnum fjölmiðla. Ekki mun liggja fyrir í dag hvort Útlendingastofnun mun vísa einhverjum mótmælendanna úr landi, en krafa um að svo yrði barst frá sýslumanninum á Eskifirði í gærmorgunn. Stofnunin vonast til að ljúka afgreiðslu málsins á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×