Innlent

Höfðu afskipti af hópi mótmælenda

Lögreglumenn á Kárahnjúkum höfðu afskipti af hópi mótmælenda við Kárahnjúka í fyrrakvöld er mótmælendurnir gerðu sig líklega til þess að fara inn á vinnusvæði virkjunarinnar. Hópurinn samanstóð að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum af tíu til fimmtán manns og voru þeir beðnir um að fara ekki inn á svæðið. Mótmælendurnir urðu við þeim tilmælum og ekki kom til frekari afskipta, að sögn lögreglu. "Mótmælendurnir sem hér eru vilja helst að virkjanaframkvæmdirnar verði stöðvaðar og því er alls ekki óeðliegt að þeir vilji fara inn á sjálft vinnusvæðið," segir Ólafur Páll Sigurðsson, talsmaður mótmælenda við Kárahnjúka. Að sögn Ólafs voru höfð afskipti af nokkrum hópum mótmælenda á göngu kringum virkjanasvæðið í fyrrakvöld. Ólafur segir að mótmælendur hafi tekið tilmælum lögreglu vel, að því er hann best viti. "Þessir hópar eru ekki hérna til þess að lenda í átökum við lögreglu," segir hann. Nokkrir Íslendingar voru í hópunum, sem samanstóðu að mestu leyti af erlendum mótmælendum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×