Erlent

Hafa engan rétt á aðgerðum á Gaza

Mahmoud Abbas á fundi með samstarfsmönnum sínum.
Mahmoud Abbas á fundi með samstarfsmönnum sínum. MYND/AP

Ísraelar hafa engan rétt á að grípa til aðgerða á Gaza eftir brotthvarf þeirra þaðan segir Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar. Hann segir flugskeytaárásir palestínskra vígamanna á Ísrael af Gaza engu breyta um það.

Palestínskir vígamenn hafa nýtt sér brotthvarf Ísraela frá Gaza til að skjóta flugskeytum á byggðir í Ísrael sem voru áður utan skotfæris þeirra. Ísraelar hafa brugðist illa við þessu og gert loftárásir á Gazasvæðinu auk þess sem dreifimiðum hefur verið varpað úr ísraelskum flugvélum þar sem Palestínumenn eru varaðir við að vera á ferli nyrst á Gazaströndinni.

Á blaðamannafundi í dag hvatti Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, vígamenn til að hætta árásum á Ísrael svo Ísraelar fengju ekki ástæðu til að leggja Gaza aftur undir sig.

Abbas sagði augljóst að Ísraelar hefðu yfirgefið Gaza og hefðu engan rétt á að snúa þangað aftur. Ísraelar mættu heldur ekki grípa til nokkurra aðgerða þar, sama hver réttlæting þeirra væri, svo sem eldflugaárásir sem Abbas sagðist fordæma fyrirvaralaust. Hann bað vígamenn að hætta árásum sínum og gefa Ísraelum engar afsakanir fyrir árásum á Gaza. Forsetinn sagðist fordæma hvaða aðgerð Palestínumanna sem gæti haft í för með sér að Ísraelar hernæmu Gaza á ný. Hann sagðist hafa séð og heyrt í eldflaugum og herþotum Ísraela síðustu nótt og kvað það gjörsamlega óásættanlegt. Ísraelar hefðu yfirgefið Gaza og ættu að halda sig fjarri því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×