Innlent

Ummæli Péturs ósmekkleg

Framkvæmdastjóri Alþjóðahúss segir ummæli Péturs Blöndal alþingismanns í DV í dag, þar sem hann fullyrðir að útlendingar líti á mæðrastyrksnefnd sem tekjuölfun fyrir jól, ósmekkleg. Formaður mæðrastyrksnefndar segir Pétur lifa í öðrum heimi en annað fólk og við því sé ekkert að gera.

Í DV í dag er frétt um meinta misnotkun dóttur Péturs á matarúthlutun Mæðrastyrksnefndar sem Pétur segir að sé skýrt dæmi um galla á úthlutun mæðrastyrksnefndar. Í fréttinni er það haft eftir Pétri að hann fullyrði að útlendingar sem leiti til nefndarinnar fyrir jólin líti á það sem tekjuöflun, og lætur þar með að því liggja að útlendingar notfæri sér styrkveitingar nefndarinnar án þess að þurfa á því að halda. Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, er hissa á ummælum Péturs. "Mér finnst þau einfaldlega ósmekkleg, sérstaklega svona rétt fyrir jól," segir hann.

Einar segir enginn rök sýna fram á það að allir útlendingar bindist samtökum fyrir jól til að fá sem mest út úr mæðrastyrksnefnd. Hann bendir hins vegar á að útlendingar sem hingað koma fái ekki aðgang að félagslegri aðstoð yfirvalda og því sé ekkert óeðlilegt þó þeir sem hafi ekki til hnífs og skeiðar fyrir jól leiti til mæðrastyrksnefndar eins og Íslendingar sem svipað er ástatt um.

Formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, Ragnhildur Guðmundsdóttir, vildi ekki tjá sig um málið í dag að öðru leyti en því að hún sagði þingmanninn Pétur Blöndal lifa í öðrum heimi en þeim sem mætti forsvarsmönnum Mæðrastyrksnefndar á degi hverjum nú fyrir jól. Við því væri hins vegar ekkert að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×