Innlent

Evópuþingið hyggst rannsaka fangaflug CIA

Evrópuþingið ákvað í dag að koma á fót nefnd til að rannsaka fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar í Evrópu. Tillaga þessa efnis var samþykkt með 359 atkvæðum gegn 127. Megintilgangur rannsóknarinnar verður að kanna hvað sé hæft í ásökunum um að bandaríska leyniþjónustan hafi starfrækt fangelsi fyrir meinta hryðjuverkamenn í Póllandi og Rúmeníu.

Enginn vafi leikur lengur á því að bandaríska leyniþjónustan hefur notað flugvélar eins og þessa, sem lenti á Reykjavíkurflugvelli í haust, til að flytja grunaða hryðjuverkamenn á leynilega áfangastaði. Enn er ekki vitað hvað er hæft í ásökunum um að leynifangelsin hafi verið í Póllandi og Rúmeníu.

Tillaga um að koma á laggirnar rannsóknarnefnd til að fara ofan í málið var samþykkt með 359 atkvæðum gegn 127. Evrópuráðið, sem nær einnig til annarra Evrópuríkja en eru í ESB, er sömuleiðis að rannsaka málið. Á þýska þinginu var í dag rætt mál þýsks ríkisborgara, Khaled Al-Masris. Bandaríska leyniþjónustan rændi honum í Makedóníu, setti hann í fangelsi í Afganistan en skilaði honum svo af sér mörgum mánuðum síðar, og reyndar mörgum mánuðum eftir að ljóst var orðið að hann væri á engan hátt tengdur neinum hryðjuverkasamtökum. Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra sagði sambandsþinginu að þýsk stjórnvöld hefðu ekkert vitað um ránið á Masri fyrr en honum hafði verið sleppt, jafn fyrirvaralaust og hann hvarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×