Innlent

Til greina kemur að endurskoða þátttöku

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri segir koma til greina að endurskoða þátttöku í launanefnd sveitarfélaga, í kjölfar samninga sem Reykjavíkurborg gerði við starfsmenn sína.

Nýlegur samningur Reykjavíkurborgar við starfsmennina hefur valdið miklum viðbrögðum. Menn hafa talað um ábyrgðarleysi og atlögu að íslensku samfélagi. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði hefur sagt að endurskoða þurfi samninga við starfsmenn Hafnarfjarðar og sú spurning vaknar hvort það sama sé uppi hjá öðrum sveitarfélögum, eins og til dæmis á Akureyri. Kristján segir að það verði að endurskoða samstarf innan launanefndar sveitarfélaganna.

Kristján Þór segir að sér sýnist að með þessum samningum sé verið að ganga gegn þeim markmiðum sem sett hafi verið. Hann segir vel koma til greina að endurskoða þátttöku í starfi launanefndari sveitarfélaga, en vill þó ekki ganga svo langt að segja að Reykjavíkurborg hafi með samningnum komið í bakið á öðrum sveitarfélögum.

Bæjarstjórinn segir ekki öll sveitarfélög hafa bolmagn til að gera samninga, eins og þá sem Reykjavíkurborg gerði, við sitt fólk. Kristján segir að miðað við það verklag sem launanefndin hefur sett sér þá sé það hans mat að vinnubrögð Reykjavíkurborgar í þessu máli séu ekki eðlileg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×