Innlent

5 stjörnu vegir á Íslandi

Fimm stjörnu bílar á fimm stjörnu vegum, er markmið Félags íslenskra bifreiðaeigenda sem í dag kynnti nýtt verkefni í samstarfi við Umferðarstofu og Samgönguráðuneyti þar sem gerðar eru ítarlegar öryggisúttektir á íslenskum vegum undir merkjum EuroRAP.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda mun gera ítarlegt gæðamat á íslenskum vegum og gefa þeim stjörnur eftir gæðum. Gæðamatið er framkvæmt undir merkjum EuroRAP, en hlutverk EuroRap er að gera gæðamat á vegum út frá slysasögu og mati á öryggi veganna samkvæmt stöðluðum aðferðum. Til að framkvæma matið hefur FÍB fengið bíl til verkefnisins og standa nokkur fyrirtæki að rekstri hans. Þau eru bílaumboðið Askja, Goodyear, Olíufélagið, Lýsing, Landflutningar Samskip og Vátryggingafélag Íslands.

EuroRap öryggisflokkunin er mikilvægt tæki fyrir vegahönnuði, m.a. til að mæla áhættu og bera saman öryggi mismunandi vega. Óháð gæðaefitrlit á vegum er lykilþáttur í þessu starfi, en verkefnið er unnið í náinni samvinnu við yfirvöld og veghaldara á hverjum stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×