Innlent

Flug liggur víða niðri

Reykjavíkurflugvöllur
Mats Wibe Lund

Hvassviðrið víða um land í dag hefur haft mikil áhrif á flugsamgöngur. Allt flug til og frá Vestmannaeyjum hefur legið niðri og sömu sögu er að segja með flug til og frá Ísafirði. Í Eyjum er óvíst hvenær hægt verður að fljúga aftur og að sögn starfsmanns Flugfélags Íslands á flugvellinum þar er útlitið slæmt alveg fram yfir helgi. Á Ísafirði hefur öllu flugi það sem eftir er dagsins verið aflýst, en búist er við að hægt verði að fljúga að nýju á morgun. Þá þurfti ein vél Flugfélags Íslands, sem kom frá Reykjavík og ætlaði að lenda á Egilsstöðum, að snúa við þegar hún var svo gott sem komin á áfangastað. Á þriðja tímanum hafði vind við flugvöllinn á Egilsstöðum lægt að nýju og lagði vélin því af stað að nýju frá Reykjavík skömmu fyrir klukkan þrjú. Á Akureyri og nágrenni er hæglætisveður og allt flug þar um slóðir því gengið að óskum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×