Innlent

Bara nýgreind börn fá aðstoð

Foreldrar barna, sem greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eftir næstu áramót, geta fengið tímabundna fjárhagsaðstoð vegna vinnutaps, en ekki foreldrar barna, sem þegar hafa fengið sjúkdómsgreiningu. Þetta kemur fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í byrjun desember.

Frumvarpinu er ætlað að tryggja foreldrum tímabundna fjárhagsaðstoð þegar þeir geta ekki stundað nám eða vinnu vegna bráðaaðstæðna sem upp geta komið þegar börn þeirra greinast með alvarlega eða langvinna sjúkdóma sjúkdóma. Lögin eiga að taka gildi fyrsta júlí á næsta ári og gilda um börn sem fæðast fyrsta janúar næstkomandi eða síðar.

Ragna Marinósdóttir, formaður Umhyggju - félags langveikra barna, segir það fagnaðarefni að fram sé komið frumvarp sem þetta. Hins vegar segir hún það valda vonbrigðum að gildistaka laganna sé þannig að foreldrar barna sem hafi fengið greiningu fyrir 1. janúar fái ekki aðstoðina.

Hún segir aðspurð um hvort foreldrar sem nú bíði eftir greiningu fyrir börn sín eigi að bíða fram til 1. janúar með að fara með þau, að engin geti beðið eftir greiningu. Hún vonast til að frumvarpið verði lagfært þannig að þeir foreldrar sem nú séu heima með börnum sínum fái líka þá aðstoð sem frumvarpið geri ráð fyrir handa þeim sem eiga enn eftir að fá greiningu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×