Innlent

Össur vill strangari lög

Nýtt frumvarp um starfsmannaleigur gengur ekki nógu langt til að ná höndum yfir ribbalda sem brjóta lög og jafnvel mannréttindi starfsmanna sinna, segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann segir að aðgerðarleysi fulltrúa ráðherra í nefnd um starfsmannaleigur hafi orðið til þess að atvinnurekendur hafi ráðið þar lögum og lofum.

Nýtt frumvarp til laga um starfsmannaleigur var lagt fram á Alþingi í gær. Stjórnarandstæðingar fallast ekki á efni frumvarpsins enda telja þeir það ekki gera nóg til að ná utan um það ástand sem ríkt hafi vegna brota starfsmannaleiga á verkafólki og íslenskum lögum. Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar segir að sárlega vanti í frumvarpið ákvæði um að stéttarfélög geti kært fyrirtækin reynist þau hafa brotið á starfsmönnum. Einnig segir hann að á skorti að trúnaðarmönnum sé tryggður réttur til aðgangs að upplýsingum um kaup og kjör.

Össur segir það ennfremur að félagsmálaráðherra hafi lagt línurnar með því að láta sinn fulltrúa í nefndinni vera hlutlausan, þannig hafi atvinnurekendur getað neitað því sem þeir vildu og því séu fulltrúar stéttarfélaganna nú ósáttir og vilji breytingar.

Hann segir ljóst að stjórnarandstaðan muni leggja til margháttaðar breytingar á frumvarpinu svo það nái tilgangi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×