Innlent

Þjóðkirkjan þarf tvö ár til að afgreiða málið

MYND/Vilhelm

Tvö ár eru þangað til þjóðkirkjan sér fram á að afgreiða af sinni hálfu þá ósk að hún komi að hjúskaparstofnun samkynhneigðra. Biskupsstofa sendi frá sér tilkynningu í gær í tilefni frumvarps ríkisstjórnarinnar um staðfestingu á samvist samkynhneigðra.

Þar segir að á Prestastefnu á þessu ári hafi verið samþykkt að beina þeim eindregnu tilmælum til biskups að hann feli ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni að bregðast við óskinni um að þjóðkirkjan komi að hjúskaparstofnun samkynhneigðra para, með hliðstæðum hætti og þegar um karl og konu er að ræða.

Biskup varð við óskinni og hefur svokölluð kenningarnefnd þegar hafið störf. Biskupsstofa gerir ráð fyrir að nefndin skili áliti á næstu prestastefnu, sem er í apríl á næsta ári, en ekki er búist við að hægt verði að afgreiða málið endanlega fyrr en á Kirkjuþingi haustið 2007. Aðspurð hvers vegna ekki fyrr en þá segir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, verkefnastjóri upplýsingasviðs Biskupsstofu, að þetta taki einfaldlega þennan tíma þar sem málið sé umdeilt innan kirkjunnar og það þurfi því að ræða málið vel í grasrótinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×