Innlent

Tveir flokkar og hærri vextir

Útlán Íbúðalánasjóðs breyttust í dag.
Útlán Íbúðalánasjóðs breyttust í dag. MYND/Vísir

Íbúðalánasjóður býður upp á tvo lánaflokka frá og með deginum í dag. Fólk getur valið þau lán sem hafa staðið til boða hingað til og bera hér eftir 4,6 prósenta vexti sem er hækkun upp á 45 punkta, eða lán sem ekki er hægt að greiða upp nema gegn sérstakri uppgreiðsluþóknun og þá eru vextirnir 4,35 prósent.

Breytingin hefur verið lengi í undirbúningi. Þegar starfsmenn Íbúðalánasjóðs fóru að kanna möguleika á þessu fyrir nokkrum mánuðum stóðu vonir þeirra til að lækka mætti vextina niður fyrir fjögur prósent. Breytingin tafðist vegna óvissu um heimildir og í kjölfar vaxtahækkana að undanförnu varð niðurstaðan að vextirnir lækka ekki heldur hækka þeir minna en þeir hefðu ella gert.

Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir helstu breytinguna þá að fólk geti valið milli þess að þiggja lán þar sem ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að greiða það upp á lánstímabilinu. Þá eru vextirnir 4,35 prósent. Vilji fólk hins vegar geta greitt lán upp á lánstímabilinu getur það valið leið sem opnar fyrir þann möguleika en þá eru vextirnir nokkuð hærri, eða 4,6 prósent. Velji fólk fyrri valkostinn, en vill síðar greiða upp lánið að hluta eða í heild verður að greiða uppgreiðslugjald sem er þá reiknað út fyrir hvert og eitt lán. Er þá miðað við vexti af láninu sem greiða á niður og vöxtum á þeim tíma sem lánið er greitt niður.

Bankarnir hafa lengi kvartað undan samkeppni frá Íbúðalánasjóði. Með breytingunni getur Íbúðalánasjóður hvort tveggja boðið lægri, eða sambærilega vexti og bankarnir, eða lán án uppgreiðsluþóknunar en þá með hærri vöxtum. Guðmundur telur þó að þetta þýði ekki að samkeppni Íbúðalánasjóðs við bankana harðni. Kjör viðskiptavina hjá sjóðnum hafi verið betri en hjá bönkunum hingað til en nú verði þau sambærilegri því sem bankarnir bjóði, valkostirnir verði þó fleiri.

Sparisjóðirnir hækkuðu vexti sína í 4,35 prósent í morgun í kjölfar ákvörðunar Íbúðalánasjóðs. Í þarsíðustu viku hækkaði Landsbankinn vexti sína í 4,45 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×