Innlent

Mildi að ekki fór verr þegar tundurdufl kom í veiðarfæri

Frá Eskifirði
Frá Eskifirði MYND/Vísir

Mikil mildi þykir að ekki skyldi fara verr þegar að þýskur togari fékk tundurdufl í veiðafæri sín. Áhöfn togarans kom með tundurduflið upp á bryggju á Eskifirði í gær og voru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar kvaddir á vettvang.

Óskað var eftir aðstoð sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar vegna tundurdufls sem áhöfn þýska togarans Írisar setti upp á bryggjuna á Eskifirði. Svo virðist sem skipverjar hafi ekki áttað sig á alvarleika aðstæðna en þeir settu duflið á bryggjuna og kölluðu hvorki til lögreglu né hafnarstjóra. Svæðinu var lokað og fokker flugvél Landhelgisgæslunnar flaug með tvo sprengjusérfræðinga austur. Þýski togarinn sem um ræðir stundar meðal annars veiðar á karfa og landar vikulega á Eskifirði.

Tundurduflið var virkt og þurftu sprengjusérfræðingar að gera það óvirkt. Stefán Ásgrímsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni, segir að um hafi verið að ræða tundurdufl síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta var dufl með hárri hleðslu eða um 135 kílóa hleðslu af einhverju sprengjuefni.

Mildi þykir að ekki fór verr en tundurduflið rúllaði um á dekki skipsins í vitlausu veðri. Hvellettan virðist hafa sprungið. Stefán segir það til láns að hún hafi verið dottin úr og forsprengjan hafi verið farin úr. Hættan var ekki eins mikil og ef hún hefði verið í en þá hefði duflið líklega spurngið með öllu

Þetta er annað tundurduflið sem togari fær í veiðafæri sín á innan við mánuði. Þórunn Sveinsdóttir frá Vestmannaeyju fékk tundurdufl í veiðarfæri sín fyrir rúmri viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×