Innlent

Raforkurverð breytist líklega lítið

MYND/Vísir

Raforkuverð mun líklega breytast lítið þegar ný raforkulög taka gildi um áramótin. Söluhluti raforkunnar er aðeins fimm til átta prósent af verðinu, að sögn talsmanns Orkuveitu Reykjavíkur.

Nýir tímar renna upp í raforkumálum Íslendinga um næstu áramót. Þá hefst frjáls samkeppni í fyrsta sinn á raforkumarkaði hér á landi og geta landsmenn því keypt rafmagn af þeim sem þeir kjósa helst, hvort sem er til atvinnurekstrar, heimilisnotkunar eða annarra hluta. Í byrjun þessa árs var öllum stærri notendum, sem nota hundrað kílóvattstundir eða meira, gert kleift að velja sér raforkusala. Frá og með 1. janúar næstkomandi fær almenningur loks möguleika á þessu og geta landsmenn þá valið á milli sjö aðila: Rafmagnsveitu ríksins, Orkuveitu Reyjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Rafveitu Reyðarfjarðar.

Ráðstefna um raforkumál og breytingarnar sem framundan eru hófst á Hótel Nordica í morgun. Þar kom meðal annars fram að eftir breytingu munu notendur sem skipta um raforkusala fá senda tvo rafmagnsreikninga í stað eins, annan fyrir dreifingu raforkunnar en hinn fyrir sjálfa notkunina. Aðspurð hvort þetta muni leiða til lækkunar á raforkuverði til almennings í landinu segir Ingibjörg Valdimarsdótir, deildarstjóri markaðsdeildar Orkuveitu Reykjavíkur, að sveigjanleikinn sé mjög lítill. Söluhlutinn sé t.d. aðeins 5-8% af raforkuverðinu. Því verði að láta tímann leiða það í ljós hvort lækkun muni eiga sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×