Innlent

Birkið sækir í sig veðrið víða um land

Birkið, eina trjátegundin sem myndar skóga á Íslandi, hefur sótt í sig veðrið víða um land eftir því sem dregið hefur úr beit.

Ísland var viði vaxið milli fjalls og fjöru þegar landið var numið, sagði Ari fróði í Íslendingabók. Þá er talið að fjórðungur landsins hafi verið vaxinn skógi. Nú þekja skógar aðeins liðlega eitt prósent landsins.

Í erindi Soffíu Arnþórsdóttur, doktors í plöntuvistfræði,í Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í gær kom fram að birkið er að sækja í sig veðrið.Soffía segir birkiskóga á Norðausturlandi að stækka, sérstaklega þar sem dregið hafi úr beit á níunda áratugnum. Birkið hafi því haft töluverðan tíma til að ná sér á strik og skógunum fari fram en enn sé hefð fyrir sauðfjárbeit á þeim svæðum þar sem þeir eru.

Birkið sáir sér sjálft og segir Soffía það fljótt að ná sér á strik. Það hafi sýnt miklar framfarir á síðustu áratugum. Hún segir þetta eiga sér stað um allt land. Mestar framfarir hafi orðið á Norður- og Vesturlandi þar sem mikil hefð sé fyrir sauðfjárbeit á kjarrlendi.

Hún spáir því að þessi þróun muni halda áfram næstu áratugi, ekki síst með hjálp bænda, landgræðslu og skógræktar. Þetta eigi þó ekki við þar sem nýbýli verði á skógarsvæðum eins og hafi að einhverju leyti átt sér stað á Vestfjörðum. Þar muni skógur áfram hopa en það fari líka eftir því hversu mikil áhersla verði lögð á sauðfjárrækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×