Innlent

Land grær meira en það eyðist

 

Söguleg tímamót hafa orðið í gróðurfari Íslands. Í fyrsta sinn frá landnámi hefur það nú gerst að landið grær meira en það eyðist. Þetta er mat helstu sérfræðinga á þessu sviði.

Þegar fyrstu landnámsmennirnir komu til Íslands er talið að þrír fjórðu hlutar landsins hafi verið þaktir gróðri. Síðan hefur gróðri hrakað um allt land jafnt og þétt og er nú svo komið að gróður þekur aðeins fjórðung landsins.

Þeir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Ingvi Þorsteinsson náttúrufræðingur segja að nú séu margir á þeirri skoðun að á seinustu tveimur áratugum hafi dæmið snúist við og að landið grói meira upp en það eyðist. Engar beinharðar mælingar eru þó á þessu en vísbendingar eru uppi um þetta.

Þrjár ástæður eru fyrir þessari breytingu en þær eru hlýrra loftslag, dregið hefur úr álagi í högum og að síðustu hafa aðgerðir landgræðslu og skóræktar skipt máli. Líða munu þó aldir þar til umfang og stærð gróðurlenda við landnám næst aftur og enn á sér stað gríðarleg gróðureyðing bæði af náttúrunnar hendi og mannavöldum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×