Innlent

Brýtur lög um erlenda starfsmenn

Vilhjálmur Birgisson, formaður VA.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir ljóst að allir starfsmenn starfsmannaleigunnar 2B hér á landi, starfi hér ólöglega. Verkalýðsfélag Akraness kærði fyrirtækið í gær og vill að Sýslumaður stöðvi vinnu 10 Pólverja á Grundartanga sem Ístak hefur í vinnu í gegnum leiguna 2B.

Verkalýðsfélags Akraness sendi í gær sýslumanninum í Borgarnesi kæru vegna 10 pólskra starfsmanna sem unnið hafa við stækkun Norðuráls á Grundartanga og komu hingað til lands á vegum starfsmannaleigunnar 2B. Eins og fram hefur komið í fréttum sæta forsvarsmenn 2B hörðum ásökunum vegna brota á kjarasamningum og jafnvel mannréttindum um 50 pólskra starfsmanna sem fyrirtækið hefur flutt hingað til lands. Kæra Verkalýðsfélags Akraness snýr að því að starfsmannaleigan hafi ekki leyfi til að flytja hingað starfsmenn á grundvelli laga um þjónustusamninga, sem gera erlendum starfsmönnum kleift að vinna hér á landi í þrjá mánuði án sérstaks atvinnuleyfis.

Að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, geta umrædd lög ekki átt við um fyrirtækið 2B þar sem fyrirtækið sé íslenskt og skráð hér á landi, en í lögum um réttarstöðu starfsmanna sem hér starfa tímabundið á vegum slíkra samninga er skýrt kveðið á um að lögin eigi við um erlend fyrirtæki. Vilhjálmur segir því ljóst að allir þeir 50 starfsmenn sem séu við störf á vegum 2B víðs vegar um landið, séu hér ólöglega við störf og vísar þar einnig til álita Vinnumálastofnunar.

Vilhjálmur segir vandræði í tengslum við kjarasamningsbrot á erlendum starfsmönnum vera orðinn stórvandamál hér á landi og tekur dæmi af því hvernig lítið stéttarfélag eins og hans hafi þurft að hafa afskipti af tugum slíkra mála á síðustu mánuðum þar sem staðfest sé að erlent verkafólk sé hlunnfarið um laun. Hann segir ljóst að fráleitt sé að tala um að einungis nokkru tilvik valdi vandræðum - dæmin sanni annað.

Að sögn Sýslumanns í Borgarnesi er málið nú í rannsókn og niðurstöðu að vænta á morgun eða fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×