Innlent

Íslendingur á leið til Pakistan

Jón Hafsteinsson, sjúkraflutningamaður, sem heldur til skjálftasvæðanna í Pakistan eftir helgi, segist búa sig undir það versta, enda aðstæður hörmulegar í landinu. Gríðarlegir kuldar gera hjálparstarfi þar erfitt fyrir. Vetur er innan seilingar í Pakistan hluta Kasmír-héraðs þar sem öflugur jarðskjálfti reið yfir fyrir tveimur vikum og kostaði tugþúsundir lífið, auk þess sem þrjár milljónir manna misstu heimili sín. Í héraðshöfuðborginni, Muzaffarabad, sem varð einna verst úti, er kuldinn orðinn mikill og er óttast að margir deyi úr vosbúð á næstu dögum, ef ekki tekst að hraða björgunaraðgerðum. Jón Hafsteinsson, sjúkraflutningamaður, heldur til skjálftasvæðanna eftir helgi til að starfa þar í sjúkratjaldbúðum á vegum Alþjóða Rauða krossins, en hann starfaði meðal annars fyrir samtökin í Kosovo árið 1999. Hann segist munu byrja á því að fara til Islamabad og ferðast síðan til Muzaffarabad í Kasmírhéraði og mun starfa þar sem sjúkraflutningamaður.   Hann segist búa sig undir starfið með því að taka því þannig að búa sig undir það alversta og svo reyna að spila þetta af fingrum fram. Hann verður í Pakistan í tvo mánuði og starfa með sjúkraflutningamönnum af öðrum þjóðernum. Aðstæður í Pakistan versna dag frá degi, sem gerir hjálparstarfi erfiðara fyrir, enda samgöngur víða lamaðar, og neyðarskýli og tjöld eru enn af skornum skammti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×