Innlent

Greiða bændum meira en mjólkurbúin

Forsvarsmenn ostaframleiðandans Mjólku ætla að greiða bændum sem leggja mjólk inn hjá þeim umtalsvert hærra verð en ef þeir leggja hana inn í mjólkurbú. Mjólka hefur jafnframt kært Osta- og smjörsöluna til samkeppniseftirlitsins fyrir að neita að selja fyrirtækinu undanrennuduft á iðnaðarverði. Mjólka hyggst framleiða mjólkurvörur utan styrkjakerfis landbúnaðarins. Fjölskyldan að Eyjum II í Kjós er með 120 kýr á sínum snærum, en þær mjólka ekki nóg - það þarf meira. Í ljósi þess að það er mjólkurskortur á markaðnum, stefnir nú í að kúabændur geti látið bjóða í mjólkurframleiðslu sína. "Við stefnum að því að ná tveimur milljónum lítra inn í þetta samlag með okkar eigin framleiðslu og við viljum hvetja þá bændur sem eru hér næst að hafa samband við okkur. Fyrstir koma, fyrstir fá," segir Ólafur M. Magnússon hjá Mjólku. Í ostagerð þarf undanrennuduft, en Osta- og smjörsalan er eini framleiðandi þess hérlendis. Háir verndartollar eru á innfluttu dufti, svo allir sem nota undanrennuduft kaupa það af Osta- og smjörsölunni. Magnús Ólafsson, forstjóri Osta-og smjörsölunnar, segir óheimilt að selja niðurgreitt undanrennuduft til framleiðslu mjólkurvara utan kerfisins, þess vegna verði Mjólka að greiða heildsöluverð, sem er um 25% hærra en iðnaðarverðið. Þetta segir Ólafur að standist hreinlega ekki. "Það er einfaldlega mjög skrýtið því að Osta- og smjörsalan hefur selt öðrum framleiðendum sem eru að vinna mjólkurvörur hér á landi þetta undanrennuduft alla vega í þrettán ár, ef ekki lengur. Það eru allir framleiðendur aðrir en Mjólka að fá undanrennuduft fyrir iðnaðarframleiðslu afgreitt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×