Erlent

Fengu Nóbelinn í eðlisfræði

Tveir Bandaríkjamenn og Þjóðverji hlutu Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði í dag. Verðlaunin fengu þeir fyrir rannsóknir sínar í ljósfræðum, sem leiddu til mikilla framfara í fjarskiptum og geimrannsóknum.  Roy Glauber, John Hall og Theodor Haensch deildu með sér verðlaununum, tíu milljónum sænskra króna, jafnvirði um sjötíu og átta milljóna íslenskra króna. Glauber fékk þó helminginn þar sem hann er talinn brautryðjandi á sviði ljósfræðirannsókna. Hann sett fram kenningu árið 1963, sem varð grundvöllurinn að skammtaljósfræði, sem skýrir til dæmis hvernig hægt er að nota ljós til að mæla tímann nákvæmar en frumeindaklukka þar sem skekkjan er minni en einn á móti 10 í þrettánda veldi. Hall og Haensch fylgdu í kjölfarið nokkru síðar með rannsóknum á litum ljóss í frumeindum. Þetta segir leikmönnum líklega lítið, en niðurstöður áratuga rannsókna þessara þriggja manna hefur leitt til mjög aukinnar nákvæmni bæði í tímamælingum og í staðsetningartækjum eins og GPS. Það er jafnvel mögulegt að þessi ljósmælingatækni leiði til þess að GPS-staðsetningatæknin verði nothæf í geimferðum og- rannsóknum, sem og í fjarskiptum. Haensch segir sjálfur að þrívíddarsjónvarp sé einn möguleikinn sem eftir sé að kanna. Vinningshafarnir þrír, sem eru 63, 71 og 80 ára, voru að vonum kampakátir því verðlaunin eru gríðarleg viðurkenning á ævistarfinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×