Erlent

Milljónir sem flúðu Ritu snúa heim

Ríkisstjórar Texas og Louisiana flugu í gær hvor fyrir sig yfir svæðin sem verst urðu úti af völdum fellibylsins Ritu um helgina. Björgunarsveitarmenn í Suður-Louisiana leituðu hundruða íbúa á svæðinu sem talið var líklegt að væru innlyksa í kaffærðum húsum. Allt að þrjár milljónir manna, sem flúið höfðu innar í land undan aðsteðjandi fellibylnum, streymdu til síns heima í gær. Eyðileggingarmáttur Ritu var langtum minni en fellibylsins Katrínar sem gekk yfir sömu slóðir þremur vikum fyrr. Tjónið af völdum Ritu er þó umtalsvert. Tjónið á mannvirkjum á Houston-svæðinu einu nemur tugum milljóna dala að mati sérfróðra. Verst urðu þó litlir hafnarbæir úti. George W. Bush Bandaríkjaforseti hélt aftur til Washington í gær eftir að hafa fylgst með framvindunni í heimaríki sínu Texas. Hann hét því við það tækifæri að grípa til ráðstafana til að óskir stjórnenda í hernum gengju eftir um að viðbrögð stjórnvalda við náttúruhamförum yrðu betur samræmd og stjórn björgunaraðgerða færð á hendur hersins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×