Innlent

Alhvít jörð fyrir norðan og vestan

Jörð er nú alhvít á Norðurlandi og flughált á götum í byggð sem og á þjóðvegum. Fyrsti alvöru snjórinn féll í gærkvöld og í nótt og er nú 5-10 sentímetra jafnfallinn snjór á Akureyri. Börn hafa dregið fram sleða og þotur og trjágróður er kominn í hvítan og fallegan jólabúning. Lögreglan segir ökumenn almennt ekki komna á vetrardekk en mikil hálka er á götum bæjarins. Það sem af er degi hefur umferð þó gengið stórslysalaust fyrir sig og skömmu fyrir hádegi höfðu einungis borist tilkynningar um tvö umferðaróhöpp sem rekja má til hálku og bæði voru þau smávægileg. Lögreglan á Blönduósi segir snjó hafa kyngt niður í morgun og flughált á götum bæjarins, sem á þjóðvegum í nágrenni Blönduóss. Bifreið lenti út af veginum í Vatnsskarði í nótt en þrennt var í bifreiðinni. Karlmaður slapp án meiðsla en tvær konur voru fluttar á heilsugæslustöðina á Sauðárkróki. Meiðsli þeirra eru þó ekki talin alvarleg. Alhvítt er einnig á Húsavík en lögreglunni hefur ekki borist fregnir af umferðaróhöppum þar í bæ. Lögreglu á Norðurlandi ber saman um að ökumenn séu flestir hverjir enn vanbúnir til vetraraksturs og rétt fyrir þá sem á annað borð neyðast til að vera á ferðinni í dag að gæta ítrustu varúðar. Á norðanverðum Vestfjörðum er einnig alhvít jörð. Lögreglan á Ísafirði áætlaði í morgun að þar væri um fimm sentímetra snjólag en þar snjóaði bæði í gær og í morgun. Þar er einnig hált og urðu nokkur hálkuóhöpp á fimmtudag og föstudag í umdæmi Ísafjarðarlögreglunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×