Innlent

Boðið upp á stöðupróf í tungumálum

Háskólinn í Reykjavík hyggst á morgun bjóða upp á stöðupróf í tungumálum fyrir alla í tilefni af tungumála degi Evrópu. Gefst fólki kostur á að þreyta prófin frá klukkan 15 til 18 í húsakynnum Háskólans að Reykjavík að Ofanleiti 2. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum Stöðuprófin, sem nefnast dialang, eru tekin á tölvu og eiga að meta tungumálakunnáttu fólks miðað við evrópska staðla. Dialang-prófin eru ávöxtur af evrópsku samstarfsverkefni og hægt er að taka próf í dönsku, þýsku, ensku, rússnesku, spænsku, portúgölsku, sænsku, norsku, hollensku, finnsku, gelísku, frönsku, íslensku og ítölsku. Unnt er að taka próf í hlustun, lestri, ritun, málfræði eða orðaforða. Próf í hverjum þætti tekur um það bil hálftíma. Niðurstaðan úr prófunum fæst samstundis og ætti að hjálpa fólki til að taka ákvörðun um áframhaldandi tungumálanám. Þá býðst öllum að koma í Háskólann í Reykjavík jafnt á Höfðabakka sem í Ofanleiti á mánudaginn kemur og taka þátt í samræðum á hinum ýmsu tungumálum í mötuneyti skólans. Þar verður íslenskuborð fyrir útlendinga, dönsku-, ensku-, þýsku- og spænskuborð. Öllum er velkomið að koma og spjalla á erlendu málum. Sama dag mun starfsfólk Háskólans í Reykjavík tala tungum. Kennarar munu kenna á því máli sem þeim er tamast. Því má búast við að kennt verði á dönsku, ensku, þýsku, norsku, rússnesku, sænsku, spænsku, frönsku og jafnvel fleiri tungumálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×