Innlent

Uppskipting Burðaráss var jákvæð

Ingimar Ísak Bjargarson sat fund Burðaráss í síðustu viku þar sem tillaga um uppskiptingu félagsins milli Landsbanka og Straums var borin upp til atkvæða. Hann kaus með tillögunni og segir hluthafa græða á að skipta félaginu upp og styrkja þar með Landsbankann og Straum. Ingimar Ísak vakti nokkra athygli annarra fundarmanna enda talsvert yngri en þeir og einn fárra karlkynsgesta sem ekki báru hálsbindi. Mynd af honum á fundinum birtist á forsíðu Fréttablaðsins á föstudag. "Ég fór á fundinn til að taka þátt í að ákveða hvað yrði um Burðarás og sjá hvernig væri að sitja svona fund," segir Ingimar sem átt hefur hlutabréf í tvö ár. Frændi hans, Ingimar Kjartansson í Gæðamold í Gufunesi, gaf honum bréf í Eimskipafélaginu. Sú eign varð að bréfum í Burðarási sem nú hefur breyst í hlutabréf í Landsbankanum og Straumi. Ingimar fylgist með fréttum af gangi fyrirtækjanna og líst vel á þróun mála enda hefur gengi bréfa hans hækkað. Hann lætur vel af stórmennum viðskiptalífsins sem sátu með honum fundinn í síðustu viku og segir bankastjóra og fjárfesta eins og hvert annað fólk. Talnaflóðið var þó talsvert og Ingimar reynir hvað hann getur til að lesa rétt úr tölunum. Gangi það ekki leitar hann sér aðstoðar. "Ef ég skil þetta ekki fæ ég frænda minn til að þýða þetta yfir á mannamál." Ingimar er duglegur ungur maður og í sumar vann hann frá átta til fjögur við bílþrif á bílaleigu hjá afa sínum. Hýran var lögð inn í Landsbankann. Ingimar byrjaði í áttunda bekk í Laugalækjarskóla í haust og lætur vel af skólanum. Og þrátt fyrir fylgjast með hlutabréfamarkaðnum ver hann frístundum sínum með svipuðum hætti og jafnaldrar hans. "Ég hef verið í íshokkíi, er að byrja að æfa á gítar og svo hef ég gaman af fjarstýrða bensínbílnum mínum," segir hann og klappar kettinum sínum Pjakki sem þrátt fyrir að fylgjast vel með eiganda sínum veit sjálfsagt lítið um gengi hlutabréfa í Landsbankanum og Straumi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×