Innlent

Eldri borgarar á fimleikamót

Fjöldi íslenskra eldri borgara hyggur á þátttöku í fimleikasýningunni Gullnu árin 2005 sem Fimleikasamband Evrópu efnir til á Kanaríeyjum í nóvember. Sýningin er nú haldin í fyrsta sinn en stefnt er að því að hún fari fram fjórða hvert ár í framtíðinni. Anna Möller, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, segir að kynning sýningarinnar meðal eldri borgara hafi gengið vel og að áhugi á þátttöku sé mikill. "Við förum með fulla flugvél til Kanaríeyja 18. nóvember og þar mun fólkið taka þátt í sýningum og kynningum," segir Anna og bætir við að verkefnið sé afar skemmtilegt. 189 eldri borgarar hafa þegar skráð sig til þátttöku og eru þeir frá 63 ára upp í 86 ára. Leikfimiæfingar af ýmsum toga verða sýndar en einnig aðrar íþróttagreinar, til dæmis boccia. Hópurinn ráðgerir að sýna listir sínar á Íslandi 5. nóvember áður en haldið verður utan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×