Erlent

Schröder til viðræðna án skilyrða

Þingflokkur kristilegra demókrata á þýska þinginu lýsti afgerandi stuðningi við flokksformanninn Angelu Merkel í atkvæðagreiðslu í gær. 98 prósent þingflokksins, sem er aðeins þremur fulltrúum fjölmennari en þingflokkur jafnaðarmanna eftir kosningarnar á sunnudag, studdi Merkel. Með þessu vildi flokkurinn augsýnilega sýna órofna samstöðu að baki formanninum í þeirri togstreitu sem nú stendur um það hver skuli verða næsti kanslari. Vonbrigði yfir mun verri útkomu úr kosningunum en flokksmenn höfðu vænst hefur annars ótvírætt grafið undan Merkel. Gerhard Schröder, fráfarandi kanslari úr Jafnaðarmannaflokknum, sagði í gær að sinn flokkur gengi til þreifingarviðræðna við hina flokkana "án skilyrða". Hann endurtók ekki fyrri yfirlýsingu sína um að samstarf stóru flokkanna tveggja, jafnaðarmanna og kristilegra, kæmi aðeins til greina undir sinni forystu. Með þessu þykir slíkt stjórnarmynstur orðið líklegast eftir að hvorki miðju-hægri- né miðju-vinstri-blokkin náðu meirihluta í kosningunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×