Erlent

Sökuð um aðskilnaðarstefnu

Forseti Írans segir þjóð sína hafa fullan rétt til að framleiða kjarnorku. Hann sakar vesturveldin um kjarnorkuaðskilnaðarstefnu, þar sem sumum löndum sé heimilt að auðga úran og öðrum ekki. Þegar forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í gær, varði hann rétt þjóðar sinnar til að framleiða kjarnorku til orkunotkunar. Á sama tíma dvínuðu vonir manna um sátt í kjarnorkudeilu Írana og vesturveldanna, og er hugsanlegt að málinu verði skotið til öryggisráðsins. Ahmadinejad sagði í ávarpi sínu að orkuframleiðsla Írans byggðist á friðsamlegri kjarnorkutækni og til að byggja upp traust væri Íran reiðubúið að ganga til samstarfs við einkaaðila og opinbera aðila í öðrum löndum um áætlanir á svið úranauðgunar í Íran. Ahamadinejad sagði að þetta frumkvæði Írana gengi lengra en ákvæði samnings um að hindra útbreiðslu kjarnavopna kvæðu á um og miðaðist að því að byggja upp frekara traust. Íranar hefðu óskoraðan rétt til aðgangs að kjarnorku. Áframhaldandi gagnkvæmt samstarf við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina á tæknilegu og lagalegu sviði yrði megininntak kjarnorkustefnu Írana. Bandaríkjastjórn sakar Írana um að reyna að nota kjarnorkuáætlun sína til að koma sér upp kjarnavopnum en Íranar vísa því á bug. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði Írana verða að snúa aftur að samningaborðinu. Landið hefði átt í samningaviðræðum við Frakkland, Bretland og Þýskaland þegar það hefði ákveðið að hætta þeim einhliða og taka upp kjarnorkuáætlun sína á ný. Hún sagði að vandinn væri sá að hegðun Írana á umliðnum árum, hvað varðaði skyldur þeirra gagnvart Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, hefði orðið til að minnka traust fólks um allan heim á því að Íranar vildu rækja þessar skyldur sínar. Þess vegna hefðu Bretar, Frakkar og Þjóðverjar rætt við Írana um leiðir til að verða við orkuþörf þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×