Erlent

Lítið mannfall á kosningadag

Þingkosningar fóru fram í Afganistan í dag án þess að uppreisnarmenn næðu að valda miklum skaða. Kjörstöðum var lokað klukkan fjögur að afgönskum tíma og segja yfirvöld að kjörsókn hafi verið jöfn og stöðug allan daginn þótt ekki sé talið að jafnmargir hafi kosið og nú og í forsetakosningunum í fyrra, en þá var kjörsókn rúmlega 70 prósent. Tugir þúsunda afganskra og erlendra hermanna gættu öryggis í kosningunum enda höfðu uppreisnarmenn í landinu hótað að refsa þeim sem neyttu atkvæðisréttar síns. Sex eru sagðir hafa verið drepnir í árásum uppreisnarmanna á meðan kjörstaðir voru opnir og þá særðist starfsmaður Sameinuðu þjóðanna þegar skotið var á búðir samtakanna skammt frá höfuðborginni Kabúl. Um tólf milljónir Afgana voru á kjörskrá og þá börðust um 5800 frambjóðendur um 249 sæti á þinginu, en úrslita er ekki að vænta fyrr en síðla októbermánaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×