Innlent

Höfða mál gegn olíufélögunum

Útgerðarmenn eru farnir að undirbúa málshöfðanir gegn olíufélögunum vegna taps sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna samráðs olíufélaganna. Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Guðmundar Runólfssonar á Grundarfirði, segist harðákveðinn í að höfða skaðabótamál á hendur Olíufélaginu hf. til að fá tap fyrirtækisins vegna verðsamráðs olíufélaganna bætt. Hann segir fyrirtæki sitt hafa tapað miklum peningum vegna samráðs olíufélaganna; olíureikningurinn í versta áferðinu hafi farið upp í 40% af rekstrartekjum skipanna. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir samningaviðræður við olíufélögin engum árangri hafa skilað. Útvegsmenn hafi vonast til að fá bætur með samningum en nú sé ljóst að menn verði að sækja þær fyrir dómi. Friðrik segir óljóst hversu margir útvegsmenn höfði mál en segir LÍÚ styðja við bakið á þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×