Innlent

Mikil fjöldi átröskunarsjúklinga

Þriðja hvern dag kemur nýr átröskunarsjúklingur á bráðavakt geðdeildar Landspítalans. Í haust stendur til að setja á stofn sérstaka göngudeild fyrir fólk með átröskun.  Talið er að þrjú til fjögur prósent allra kvenna undri þrítugu þjáist af átröskun af einhverju tagi. Hlutfallið hjá karlmönnum er tíu sinnum lægra. Hluti sjúklinganna er svo illa á sig kominn að hann þarf að leggjast inn á geðdeild vegna sjúkdómsins. Í hverri viku koma konur með átröskun í fyrsta sinn á bráðavakt geðdeildar Landspítalans að sögn Guðlaugar Þorsteinsdóttur, geðlæknis á spítalanum, eða eitt til þrjú tilfelli á viku. Við þetta bætist svo fjöldi fólks sem leitar til heilsugæslunnar, eða fær aðstoð í gegnum síma. Hingað til hefur ekki verið starfrækt sérstök göngudeild vegna átröskunarsjúkdóma á Landspítalanum. Síðastliðin fjögur ár hefur farið fram mikil vinna hjá hópi fólks sem vill breyta þessu. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segist vonast til að strax í haust verði 16-18 milljónir settar í meðferðarúrræði. Gangi það eftir verða peningarnir notaðir til að manna fjögur stöðugildi sérfræðinga sem alfarið munu einbeita sér að starfi með átröskunarsjúklingum. Guðlaug segir það mjög góða byrjun að koma af stað göngudeildarteymi, enda hafi árum saman vantað sérstök úrræði fyrir átröskunarsjúklinga. Það sé þó afskaplega brýnt að láta ekki staðar numið og fljótlega verði að láta kné fylgja og koma á fót bæði dagdeild og eftirmeðferðardeild.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×