Innlent

Ásælast flugstjórnarsvæði Íslands

Kanadamenn eru farnir að ásælast hluta af flugstjórnarsvæði Íslands. Ástæða þess að Kanadamenn vilja fá stærri hluta er auðvitað fjárhagsleg - svæðinu fylgja miklar gjaldeyristekjur og fjöldi starfa. Alþjóðlega flugumferðarsvæðið sem Íslendingar stýra er gríðarstórt og um það fara um 30% allrar flugumferðar yfir Atlantshafið. Kanadamenn vildu gjarnan fá sneið af þessari köku að sögn Heimis Más Péturssonar, upplýsingafulltrúa Flugmálastjórnar, og hann segir að þeir hafi ekkert farið leynt með þann áhuga sinn. Það eru heilmiklir hagsmunir í húfi: hátt í 200 störf og tæpir tveir milljarðar króna í gjaldeyristekjur. Aðspurður hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir að stóri bróðir í vestri næli sér í verkefnin segir Heimir Már eina ráðið að veita áfram góða þjónustu og verðleggja hana ekki of hátt. 120 manns vinna hjá Flugmálastjórn, um 50 hjá dótturfélaginu Flugfjarskiptum og um 30 hjá Flugkerfum sem sjá um hugbúnað og fleira. Samtals eru þetta hátt í tvö hundruð störf sem skapa 1,8 milljarða króna í gjaldeyristekjur á ári. Það eru flugfélögin sem nýta sér þjónustuna sem greiða kostnaðinn, svo þau gætu sett þrýsting á Alþjóða flugmálastofnunina, ef Kanadamenn undirbjóða. Aðspurður hvað gerist þá segir Heimir að svolítið flókið ferli fari gang. Fjölþjóðasamningur sé til staðar um þjónustuna sem Íslendingar veiti en hann er í vörslu Alþjóða flugmálastofnunarinnar. Heimir segist ekkert vera að fara á taugum út af þessu því forseti stofnunarinnar hafi beinlínis sagt að hann vilji að þjónustan verði áfram í höndum Íslendinga. Flugumferðarstjórn hefur verið hlutafélagavædd í mörgum landanna í kringum okkur og samgönguráðherra hefur boðað frumvarp í vetur um slíkar breytingar hérlendis. Heimir Már telur það munu auka samkeppnishæfni og sveigjanleika Íslendinga á þessu sviði. Við munum því ekki sleppa hendinni svo glatt af okkar alþjóðlega flugstjórnarsvæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×