Innlent

Vestfirðingar upplifa meiri hættu

„Vestfirðingar upplifa mikla áhættu vegna reglubundinna ferða sinna að vetrarlagi, mun meiri en íbúar annarra landshluta og skera sig í raun alveg úr“. Þannig komast sérfræðingar Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri að orði í nýlegri skýrslu um samgöngur á Vestfjörðum sem unnin var fyrir sveitarfélögin í Barðastrandarsýslu. Þetta kemur fram á vefsíðu Bæjarins besta á Ísafirði í dag. Í skýrslunni segir að almennt upplifi Vestfirðingar mesta áhættu vegna reglubundinna ferða sinna eða fjórum prósentustigum hærra en landsmeðaltalið og hæsta gildi fyrir fjóra af þessum sjö þáttum. Það sé hins vegar í þremur áhættuþáttum sem Vestfirðir skera sig úr. þ.e. hvað varðar ófærð, hættu af skriðuföllum eða snjóflóðum og að vegirnir séu viðsjárverðir. Þá er áhætta af hvassviðri og sviptivindum með mesta tíðni meðal Vestfirðinga og þeir koma næst verst út hvað varðar áhættu af sökum hálku. „Þetta verður að teljast mjög sláandi niðurstaða og sýnir hvað Vestfirðingar upplifa aðstæður sínar slæmar til ferða að vetrarlagi,“ segir í skýrslunni. Skýrsluhöfundar leggja til endurbætur í vegakerfinu sem miði að því að færa vegina niður á láglendið en þær komi mest til móts við slæma upplifun á vegakerfinu. Skýrsluhöfundar nefna endurbætur á Djúpvegi og Vestfjarðarvegi sem nú eru í deiglunni sem mikilvæg skref til að draga úr neikvæðri upplifun vegfarenda. Vafalaust á það við um ýmsa aðra vegi sem skýrslan tekur ekki til, og má taka nærtækt dæmi af vegunum um Óshlíð og Súðavíkurhlíð þar sem er mikil og regluleg umferð og vaxandi áhyggjur af öryggismálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×