Erlent

Segja olíuverð kalla á alþjóðaátak

Leiðtogar Evrópuríkja kölluðu í gær eftir samstilltum aðgerðum til að hafa hemil á olíuverðshækkunum. Breski fjármálaráðherrann hvatti OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, til að auka framleiðsluna og franski forsetinn bað olíufyrirtækin um að lækka eldsneytisverð og auka fjárfestingar í rannsóknum á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi varað við því að stjórnvöld aðildarríkjanna gripu til niðurgreiðsluaðgerða vegna olíuverðshækkananna boðaði Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakklands, endurgreiðslu á vissum hluta eldsneytisskatts til franskra bænda. Nú, þegar heimsmarkaðsverð á olíu er um fjörutíu prósentustigum hærra en fyrir einu ári, fer uggur um marga í Evrópu um hrakandi efnahagshorfur. Hagtölur eru þegar farnar að sýna að eldsneytisverðið er farið að þrýsta upp verðbólgunni. Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, lagði til að efnt yrði til alþjóðlegs átaks til að koma á ró á olíumörkuðum. "Þar sem þetta er að kjarna til vandi þar sem eftirspurn fer fram úr framboði verður OPEC að bregðast við á næsta ráðherrafundi sínum hinn 19. september," sagði Brown í ræðu í Brighton.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×