Innlent

Leita á 30 hektara svæði í sjó

Ákvörðun um tilhögun frekari leitar að Friðriki Ásgeiri Hermannssyni, sem saknað er eftir slysið á Viðeyjarsundi um helgina, verður tekin á stöðumatsfundi núna í bítið, að sögn Jónasar Hallssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns í Reykjavík. Í slysinu fórst kona, en hjón björguðust ásamt 10 ára gömlum syni þeirra. Í gær var notast við neðansjávarmyndavélar við leitina. Björgunarskipið Baldur frá Landhelgisgæslunni leitaði fram á kvöld og naut liðsinnis björgunarbáts Landsbjargar, Ásgríms S. Björnssonar og fjölda kafara. "Svo voru líka með fjórir léttbátar skipaðir vinum og ættingjum," segir Jónas, en leitarsvæðið markast af um það bil eins kílómetra radíus frá slysstað á Viðeyjarsundi. Samkvæmt heimildum blaðsins hafði í gær þegar farið fram allítarleg leit á sjávarbotninum á leitarsvæðinu, en það er nokkuð stórt, um 30 hektarar. Þar munu vera svæði sem mjög erfið eru til leitar, þó svo víðast hvar sé sjávarbotninn auðveldari yfirferðar. Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjón í Reykjavík segir fátt af rannsókn slyssins að segja annað en hún sé ítarleg og haldi áfram. Rannsóknin miðar meðal annars að því að upplýsa með óyggjandi hætti um hver var við stýrið á bátnum þegar slysið varð og um aðstæður allar, hvert ferðinni var heitið, hvort vín hafi verið haft um hönd og fleira slíkt. Heimildir blaðsins herma að fyrstu skýrslutökur af fólkinu sem bjargaðist hafi verið að hefjast í gær. Tæpur hálfur annar tími leið frá því tilkynning barst um slysið þar til fólkinu var bjargað. Rúmum klukkutíma síðar fannst svo konan sem lést. Kafari sem þekkir vel til leitar og björgunar taldi af því sem komið hefur fram um útkallið, að ekki hafi liðið óeðlilega langur tími þar til kafara bar að, heldur hafi viðeigandi björgunarlið verið kölluð til eftir því sem menn gerðu sér ljósan alvarleika slyssins. Kunnugir á Viðeyjarsundi furða sig á að vanur maður kunni að hafa siglt þar á Skarfasker, en á sundinu er bauja sem varar við skerinu. Telja þeir að sá sem stýrði hafi annað hvort ruglast, eða ætlað að stytta sér leið innan við skerið. Skemmdirnar á bátnum bera með sér að áreksturinn við skerið hefur verið allharður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×