Innlent

Huga þarf að fjöldaútkalli kafara

Jónas Hallsson yfirlögregluþjónn í Reykjavík segir lögreglu, slökkvilið og björgunarsveitir vel skipaðar köfurum til að bregðast við slysum á eða í vatni. "Fyrstu viðbrögð sem verða þegar svona kemur upp að leita til þess búnaðar sem við, lögregla og slökkvilið, höfum yfir að ráða, en svo er nú ekki nema svona tuttugu mínútna bið eftir meiri búnaði björgunarsveita. Þeir hafa alltaf brugðist skjótt við á öllum tímum sem til þeirra hefur þurft að leita," segir hann, en telur þó að ef til vill mætti stytta enn frekar aðkomutíma björgunarsveita þegar slys verða.  "Við höfum verið heppin, en maður getur spurt sig hvað yrði ef hér færi flugvél í sjóinn með einhverjum mannskap. Þá gæti þurft að kalla út marga með hraði." Hann segir nokkra umræðu um þetta hafa átt sér stað meðal lögreglu og björgunarsveita, en enn hafi þó ekki komið niðurstaða úr þessum vangaveltum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×