Erlent

Líst illa á nafnið Greyhound-búðir

Eigendur Greyhound-rútufyrirtækisins í Bandaríkjunum hafa beðið fangelsismálayfirvöld í Louisiana að hætta að kalla rútustöð fyrirtækisins í New Orleans Greyhound-búðirnar. Stöðinni var á dögunum breytt tímabundið í fangelsi þar sem meðal annars glæpamenn, sem nýttu sér neyðina eftir yfirreið fellibylsins Katrínar, voru geymdir. Eigendum Greyhound var hins vegar ekki skemmt þegar farið var að kalla stöðina Greyhound-búðirnar í fjölmiðlum og kvörtuðu því til yfirvalda. Þau hafa nú brugðist við og hér eftir verður rútustöðvarfangelsið kallað Angola South. Þar eru ekki einungis glæpamenn sem létu til sín taka í kjölfar hamfaranna heldur einnig fangar úr aðalfangelsi Louisiana, sem er stærsta hámarksöryggisgæslufangelsi Bandaríkjanna og hýsti illræmda glæpamenn áður en fellibylurinn Katrín reið yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×