Erlent

Stjórnarflokkar töpuðu 24 sætum

Ríkisstjórn Noregs féll í þingkosningunum þar í gær. Vinstriflokkarnir í stjórnarandstöðunni náðu 88 þingsætum en ríkisstjórn Kjell Magne Bondevik fékk aðeins aðeins 81 sæti og tapaði 24 þingsætum frá síðustu kosningum. Bondevik fer á fund Haraldar Noregskonungs í dag og mun þar tilkynna honum um brotthvarf sitt úr embætti eftir að fjárlögin hafa verið kynnt í október. Bondevik gaf í morgun sterklega til kynna að hann myndi hætta afskiptum af stjórnmálum í kjölfarið. Flokkur hans, Kristilegi þjóðarflokkurinn, tapaði helmingi þingsæta sinna í kosningunum í gær. Jens Stoltenberg, leiðtogaefni vinstrimanna, sem nær örugglega verður næsti forsætisráðherra Noregs, sagði í morgun að stjórnarandstaðan myndi reyna að mynda ríkisstjórn hið fyrsta eins og kjósendum hefði verið lofað ef úrslitin færu á þennan veg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×