Erlent

Endalok hernáms á Gasaströndinni

Tímamót urðu fyrir botni Miðjarðarhafs í morgun þegar síðustu ísraelsku hermennirnir yfirgáfu Gasaströndina. Palestínumönnum hafa verið afhent yfirráð yfir svæðinu, en það er hér í veröldinni, liggur að Egyptalandi, Ísrael og Miðjarðarhafinu. Endalok hernámsins eru tvímælalaust stórt skref í friðarferlinu en þetta umtalaða landsvæði er þó ekki nema um 360 ferkílómetrar. Ef það er borið saman við Ísland er Gasaströndin minni en Reykjanesið. Palestínumenn fagna þessum áfanga mjög og vona að þetta þýði að nú styttist í að sjálfstætt ríki þeirra verði til. Síðustu hermennirnir gengu í gegn, lokuðu á eftir sér landamærahliðinu, tóku niður ísraelska fánann og héldu á brott frá Gasaströndinni eftir tæplega fjörutíu ára hernám ísraelska hersins á svæðinu. Aviv Kochavi, hershöfðinig í ísraelska hernum, sagði að verkefninu væri lokið og ákveðið tímaskeið væri lokið. Héðan í frá bæru Palestínumenn ábyrgð á öllu sem gerðist á Gasasvæðinu  Palestínumenn voru margir trylltir af gleði og þeir streymdu inn í yfirgefnar landnemabyggðirnar, veifuðu palestínskum fánum, skutu upp í loftið og á þremur stöðum var kveikt í sýnagógum, samkomuhúsum gyðinga. Ákvörðun Ísraelsstjórnar um lok hernámsins og rýmingu landnemabyggða var afar umdeild, enda eru skoðanir almennings mismunandi. Sumir telja brottflutninginn gott skref fyrir Ísrael og að Sharon forsætisráðherra hafi haft öryggi að leiðarljósi með ákvörðuninni. Aðrir telja að um mikil mistök sé að ræða. Þetta sé í fyrsta sinn sem Ísraelar gefi eftir án þess að fá neitt í staðinn og þetta verði mjög skaðlegt fyrir framtíðina. Mahmoud Abbas, forseti heimastjórnarinnar skoðaði fyrrverandi landnemabyggðina Elei Sinai í dag, og var ánægður fyrir hönd síns fólks. Hann sagði að næsta skref yrði að binda enda á hernám á Vesturbakkanum og stofna sjálfstætt ríki. Í dag ætti þjóðin að fagna. Allt ferlið hefur tekið styttri tíma en búist var við, og Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur sagt að hann ætli að fylgja vegvísinum til friðar, sem gerir ráð fyrir sjálfstæðu ríki Palestínumanna. Nú reyni hins vegar á heimastjórn Palestínu að sýna, að hún geti haft stjórn á sínu fólki, ekki síst herskáum hópum öfgamanna sem gætu eyðilagt frekari samningaviðræður með hryðjuverkum. Ef ekki, þá verði ekki um neinar frekari tilslakanir að ræða af hálfu Ísraels. Palestínumenn höfðu aðeins ráðið Gasaströndinni í nokkrar klukkustundir þegar egypskir landamæraverðir skutu ungan Palestínumann til bana. Ástæðan er ekki ljós en 11 kílómetra löngum landamærum Egyptalands verður lokað á næstunni þar sem 750 þungvopnaðir verðir eiga að gæta þess að enginn komist yfir - að sögn til að koma í veg fyrir vopnasmygl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×