Innlent

Fellibylsleifar við suðurströndina

Leifar af fellibylnum Maríu eru nú við suðurströnd landsins. Veðrið mun ná hámarki nú í hádeginu. Fólki er ráðlagt að gera ráðstafanir og binda niður lausa hluti á svæðum sem eru opin fyrir vindi. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir veðrið óspennandi næstu tvo daga. Á miðvikudag á veðrið að vera gengið niður en þá er spáð hægvirði og skýjuðu með köflum. Sigurður segir leifar af fellibylnum Maríu þarna á ferðinni en hún hafi orðið til vestur af Flórídaskaga og hafi ekki gengið á land fyrr en nú. Hann segir að upp úr hádegi muni hvessa mjög, einkum með fram suðurströnd landsins og svo gangi strengurinn yfir landið. Búast megi við að veður verði leiðinlegt víða um land í kvöld. Lægðin sem nú fer yfir eru ekki einungis leifar af fellibylnum Maríu heldur hefur hún safnað í sarpinn á leiðinni og lægðir gengið inn í hana. Sigurður segir vindhraða við suðurströndina um hádegi geta náð 30 metrum á sekúndu og í hviðum má allt eins búast við að vindhraði geti komist í 35 metra á sekúndu, en hviðurnar í dag verða trúlega verstar sunnan við Vatnajökul, við Skaftafell og við Mýrdalsjökul. Sigurður segir að á morgun verði sennilega hvassast á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi en svo muni lægja aðra nótt. Íslendingar þurfi því að þola haustveðrið í tvo daga með öllu því sem því fylgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×