Innlent

Ástandið verst í Kópavogi

Staða starfsmannamála í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu hefur heldur lagast frá síðustu mánaðamótum þó enn vanti talsvert upp á að skólarnir séu fullmannaðir. Ástandið er sýnu verst í Kópavogi þar sem vantar fólk í hátt í tuttugu stöðugildi en upplýsingar um ástandið í Reykjavík fengust ekki þar sem þær liggja ekki fyrir. Á Seltjarnarnesi eru tveir leikskólar og vantar einn til tvo starsmenn til að manna annan þeirra. Í Hafnarfirði vantaði sautján starfsmenn í leikskóla bæjarins þegar verst lét en nú vantar í fjórar til fimm stöður. Hjá Leikskólum Reykjavíkur fengust þær upplýsingar að ekki væri búið að taka saman í hversu margar stöður vantaði þar sem ráðningarnar færu fram á leikskólunum sjálfum. Í Kópavogi vantar enn í hátt í 20 stöður en það vantaði fólk í 30 stöðugildi fyrir nokkru. Sesselja Hauksdóttir, leikskólaráðgjarfi Kópavogs, segir þenslu í þjóðfélaginu gera ástandið erfitt en helsta vopn leikskólanna sé hversu skemmtilegir vinnustaðir þeir séu. Sesselja segir ástandið einna verst í Salahverfi en í gömlu hverfunum vanti í eina og eina stöðu. Þá hafi ekki tekist að manna nýja deild í öðrum leikskólanum í Lindahverfi en til standi að opna hana um næstu mánaðamót. Sesselja segir enn fremur hafa verið brugðist við ástandinu með því að fresta inntöku barna og í einhverjum leiksskólum hafi foreldrar þurft að sækja börn sín fyrr en ella, sérstaklega ef veikindi hafi verið mikil hjá starfsfólki. Þá segir Sesselja að útlit sé fyrir að draga þurfi eitthvað úr starfsemi í leikskólum í Salahverfi um næstu mánaðamót eða jafnvel strax ef ekki takist að manna stöður þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×