Innlent

Nýtt skólahúsnæði of lítið

Nýtt húsnæði Korpuskóla er ekki nógu stórt til að hýsa alla nemendur skólans og því þurfa þrjár bekkjardeildir að stunda nám í lausum kennslustofum í vetur. Formaður menntaráðs Reykjavíkur segir að nemendum skólans muni fækka á næstu árum. Það myndi kosta skattgreiðendur offjár ef byggður væri of stór skóli. Nemendur sem stundað hafa nám við Korpúlfstaðarskóla undanfarin ár færa sig um set í október þegar nýr Korpuskóli verður tilbúinn. Þó að skólinn sé nýr annar hann ekki öllum nemendunum og því verða þrjár lausar kennslustofur notaðar til að hýsa unglingadeild skólans. Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs, segir að samkvæmt útreikningum tölfræðinga Reykjavíkurborgar sé ljóst að fjöldi barna í skólanum sé í algjöru hámarki nú og það væri ekki rétt að miða nýja skólann við það. Aðspurður segir Stefán að áætlanir borgarinnar hvað þetta varðar hafi staðist mjög vel hingað til. Og hann segir réttlætanlegt að þau börn sem nú stundi nám við skólann þurfi að bíta í það súra epli að búa við óviðunandi aðstæður. Þeir sem til þekkja segja að lausu kennslustofurnar séu um 20 ára gamlar. Aðspurður hvort þær séu ekki orðnar algerlega úreltar eftir 5-10 ár segist Stefán ekki þekkja til ástandsins á þeim en hann muni að sjálfsögðu athuga það mál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×