Innlent

Rannsaka viðbrögð eftir neyðarkall

Um hundrað og fimmtíu manns tóku þátt í leitinni að Friðriki Á. Hermannssyni sem saknað er eftir sjóslysið við Skarfasker aðfaranótt sunnudags. Hann hafði ekki fundist þegar Fréttablaðið fór í prentun. Hjón sem slösuðust alvarlega í sjóslysinu voru útskrifuð af gjörgæslu í gær. Þau hlutu alvarlega áverka að sögn vakthafandi læknis og urðu að gangast undir aðgerð. Tíu ára sonur hjónanna hefur verið útskrifaður af spítala. Að sögn Þorvalds Friðriks Hallssonar, hjá Svæðisstjórn björgunarsveita, voru fimmtán kafarar að störfum í og við Viðeyjarsund og var notast við svokölluð fjölgeislatæki sem kortleggja sjávarbotninn. Fjölmargir björgunarsveitarbátar kembdu Viðeyjarsundið. Félagið Snarfarar, sem er félag sportbátaeiganda, lagði Slysavarnarfélaginu lið og tóku félagsmenn á 25 bátum þátt í leitinni. Vinir og ættingjar Friðriks tóku sig einnig saman og gengu fjörur ásamt björgunarsveitarmönnum frá því klukkan tvö en háfjara var um klukkan hálf þrjú. Að sögn Þorvalds voru tuttugu og átta gönguhópar á ferð þegar mest var. Hátt í hálf önnur klukkustund leið frá því neyðarkall barst og þar til þremur úr bátnum var bjargað auk þess sem bráðaútkall til þyrluáhafnar Landhelgisgæslunnar barst hálftíma eftir að Neyðarlína fékk neyðarkallið. Að sögn Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hefur ekki verið farið yfir þetta ferli ennþá en það verður gert á næstu dögum. Karl Steinar segir að enn sem komið er hafi öll áherslan verið lögð á leitina af Friðriki og því sé enn ekki búið að fara yfir þessa þætti. Viðmælandi Fréttablaðsins segir að samband hafi slitnað við drenginn sem hringdi í Neyðarlínuna og því hafi ekki allar upplýsingar komist til skila. Þar af leiðandi hafi mönnum ekki verið ljós alvara málsins í upphafi. Ingi Tryggvason, formaður Rannsóknanefndar sjóslysa, hefur litið á bátinn en segir rannsókn slyssins á frumstigi. Hann segir að miðað við skemmdirnar á bátnum líti út fyrir að hann hafi verið á mikilli ferð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×