Innlent

Sextán björguðust úr eldsvoðanum

Sextán manns, þar af tólf konur, björguðust úr brennandi svefnskála Impregilo við Kárahnjúka í nótt. Einn maður var fluttur til Egilsstaða til meðferðar vegna reykeitrunar en öðrum varð ekki meint af. Sjálfvirkt viðvörunarkerfi sendi boð um eldinn um klukkan hálfeitt í nótt og um svipað leyti varð fólk á staðnum vart við eldsvoðann sem virðist hafa kviknað í anddyri skálans. Leó Sigurðsson, öryggisstjóri við Kárahnjúka, segir að þar hafi verið sprittkerti. Þeir sem voru inni í skálanum, urðu mjög fljótt varir við eldinn og allir komust út af eigin rammleik áður en eldurinn náði að breiðast út. Þegar slökkvilið kom að var búið að slökkva stærstan hluta eldsins en mikill reykur var á staðnum. Leó segir að tveir reykkafarar hafi verið sendir inn í skálann til að ganga úr skugga um að enginn væri inni í honum sem reyndist og vera. Í framhaldinu var hafist handa við að reykræsta skálann. Töluverðar skemmdir urðu inni í skálanum, einkum í anddyrinu þar sem eldurinn kom upp en líka í lofti og á veggjum í ganginum. Tólf konur frá Íslandi, Portúgal, Taílandi og Filippseyjum búa í skálanum sem er svokallaður dömuskáli og er með sautján herbergjum. Fjórir karlmenn voru líka inni þegar eldurinn kom upp og einn þeirra reyndi að slökkva með handslökkvitæki áður en slökkvilið vinnusvæðisins kom að staðnum. Hann fékk snert af reykeitrun og var fluttur á sjúkrahús, en jafnaði sig fljótt og var útskrifaður í dag.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×