Innlent

Einn fékk reykeitrun í eldsvoðanum

Á annan tug manna björguðust út þegar eldur kom upp í svefnskála við Kárahnjúka í nótt. Einn maður var fluttur til Egilsstaða til meðferðar vegna reykeitrunar en öðrum varð ekki meint af. Sjálfvirkt viðvörunarkerfi sendi boð um eldinn um klukkan hálfeitt og um svipað leyti varð fólk á staðnum vart við eldsvoðann. Grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað út frá logandi kerti í anddyri skálans og myndaðist mikill reykur. Tólf konur búa í skálanum, sem er svokallaður dömuskáli, en einnig voru nokkrir karlmenn þar og reyndi einn þeirra fyrst að slökkva með handslökkvitæki áður en slökkvilið vinnusvæðisins kom að. Leó Sigurðsson, öryggisstjóri við Kárahnjúka, var á vettvangi í nótt og segir hann fólk ekki hafa verið í teljandi hættu. Aðvörunarkerfi hafi farið í gang sem gaf fólki möguleika á að yfirgefa skálann í tíma. Slökkvilið hafi svo komið á vettvang skömmu síðar og ráðið niðurlögum eldsins. Eldur blossaði svo aftur upp stuttu síðar en var slökktur fljótlega. Nýjustu fréttir af líðan mannsins sem fékk snert af reykeitrun voru þær laust fyrir hádegi að hann væri búinn að ná sér og yrði útskrifaður af sjúkrahúsi. Konurnar sem búa í skálanum eru íslenskar, portúgalskar, taílenskar og filippseyskar. Tveir reykkafarar voru sendir inn í öryggisskyni til að kanna hvort einhver væri inni. Töluverða skemmdir urðu á skálanum, einkum í sameiginlegu rými við anddyri þar sem eldurinn er talinn hafa komið upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×