Innlent

Eldur í vinnuskála á Kárahnjúkum

Tólf konur björguðust út úr brennandi vinnuskála Impregilo við Kárahnjúka í nótt. Sjálfvirkt viðvörunarkerfi sendi boð um eldinn um klukkan hálfeitt og um svipað leyti urðu aðrir starfsmenn varir við eldsvoðann. Tólf konur voru þá í skálanum, sem er svokallaður dömuskáli, og reyndu tvær þeirra fyrst að slökkva með handslökkvitæki áður en slökkvilið vinnusvæðisins kom að. Allar komust út af eigin rammleik og varð engum meint af en tveir reykkafarar voru sendir inn í öryggisskyni til að kanna hvort einhver væri inni. Konurnar eru íslenskar, portúgalskar og kínverskar. Grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað út frá logandi kerti í anddyri skálans en skemmdir urðu mestar í sameiginlegu rými, að sögn Ómars Valdimarssonar, upplýsingafulltrúa Impregilo. Um klukkustund eftir að menn töldu sig hafa slökkt bálið gaus eldurinn upp að nýju en greiðlega gekk að kæfa hann. Vakt var höfð við skálann í nótt en konunum komið fyrir í öðrum skála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×