Innlent

Eldri borgarar missa 1/4 tekna

Sjö hundruð eldri borgarar hafa misst allt að fjórðungi ráðstöfunartekna sinna frá áramótum þar sem aldurstengd örorkuuppbót fellur niður við sextíu og sjö ára aldur. Örorkulífeyrir er skilgreindur á áldrinum 16 til 67 ára og fellur niður við sextíu og sjö ára aldur. Þá hefst taka ellilífeyris. Aldurstengd örorkuuppbót fellur þá einnig niður en hún er um tuttugu þúsund á mánuði. Þessi greiðsla var ákveðin í tengslum við samkomulag heilbrigðisráðherra og öryrkja í mars árið 2003 og lögfest um áramótin 2004. Talsmenn Öryrkjabandalagsins hafa lýst sig mjög ósátta við þessa framkvæmd laganna og talið sig hafa vilyrði stjórnvalda um annað. Öryrkjar eigi áfram við fötlun að stríða þótt þeir séu komnir á efri ár og margir þeirra hafi ekki greitt í Lífeyrissjóði nema lítinn hluta starfsævi sinnar. Þrátt fyrir að athygli heilbrigðisráðherra hafi verið vakin á málinu hefur ekkert gerst. Upphæðin, þó lág sé, nemur tæpum fjórðungi allra ráðstöfunartekna aldraðra sem hafa ekkert sér til framfæris annað en bætur almannatrygginga. Margrét Margeirsdóttir hjá Félagi eldri borgara segir að þau hafi nokkur svona mál inn á sitt borð. Þau hyggjast ganga á fund stjórnvalda og freista þess að fá þessu breytt. Margrét segir ákaflega þröngt í búi hjá mörgum þessara einstaklinga. Það þurfi að leiðrétta kjör þeirra strax. Alls hafi ellefu þúsund eldri borgarar um níutíu þúsund krónur á mánuði fyrir skatta og allir sjái að það dugi ekki til framfærslu. Það sé heldur ekki sæmandi fyrir jafn ríka þjóð að láta eldri borgara búa við jafn léleg kjör.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×