Innlent

Biðu í rúma klukkustund í sjónum

Ein kona er látin, eins manns er leitað en þremur var bjargað af sökkvandi báti á Viðeyjarsundi í fyrrinótt. Leitaraðstæður á slysstað voru afar erfiðar að sögn björgunarmanna. "Það var mikil rigning, hvasst og súldarbakkar gerðu skyggni mjög slæmt á köflum," segir Einar Örn Einarsson, skipstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni. "Það var í rauninni tilviljun að lögreglumennirnir fundu bátinn við þessar aðstæður." Björgunarskipið var kallað út um leið og neyðarkallið barst laust fyrir klukkan tvö en það var ekki fyrr en um þrjátíu mínútum síðar sem áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar barst bráðaútkall. Einar segir að alvara málsins hafi ekki verið ljós strax því upplýsingar sem Neyðarlínunni bárust hafi verið takmarkaðar. "Við stóðum í þeirri trú að við værum að fara að aðstoða vélarvana bát úti við Sundahöfn. Þegar við komum út á sundið var ljóst að málið var alvarlegra og var þyrlan kölluð tafarlaust út." Þyrlan fór í loftið klukkan rúmlega þrjú, en fjölskyldunni var bjargað stuttu síðar af lögreglumönnum á gúmmíbát. Tveggja var enn saknað, karls og konu, og leit haldið áfram. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kafaði maðurinn undir bátinn eftir að honum hvolfdi til að bjarga konunni en maðurinn hefur síðan ekki fundist. Klukkan 4.30 fannst konan látin en björgunarsveitir héldu leit að manninum áfram. Rúmlega hundrað björgunarsveitarmenn víðs vegar að af suðvesturhorninu leituðu áfram það sem eftir lifði dags en án árangurs. Leitarsvæðið nær frá Kjalarnesi út að Gróttu og hefur brak úr bátnum fundist uppi við Kjalarnes. Í því fannst meðal annars jakki mannsins sem saknað er. Laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi hættu björgunarsveitir leit í bili en kafarar fara af stað á ný klukkan átta í dag. Hvorki er hægt að svo stöddu að greina frá nafni konunnar sem lést né mannsins sem saknað er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×