Innlent

Ekkert neyðarástand á Sogni

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir að ráðuneytið ætli ekki að vetia aukafjármagni til réttargeðdeildarinnar á Sogni. Í frétt Fréttablaðins í gær kom fram að réttargeðdeildin er full og hefur verið brugðið á það ráð að vista einn sjúkling í vinnuherbergi. Magnús Skúlason, yfirlæknir á Sogni, sagði að sótt hefði verið um leyfi til stækkunar til heilbrigðisráðuneytisins en jákvætt svar hefði ekki fengist. Að mati Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra hefur þörfin ekki verið aðkallandi. "Deildin á að vera nógu stór og við teljum að um tilfallandi dæmi sé að ræða. Ef ósakhæfum fjögar ekki þá ætti þetta mál að leysast. Vissulega þurfum við að fylgjast vel með þróuninni og ef ástandið versnar verður gripið til einhverra ráðstafana. Eins og staðan er núna er hins vegar ekki um neitt neyðarástand að ræða. Gagnstætt því sem margir halda er töluvert um útskriftir þarna og það er því lítil hætta á að deildin fyllist aftur. Þetta er óþægilegt meðan á því stendur en nú hefur málið verið leyst til bráðabirgða," segir Jón og vísar þá til þess úrræðis að vista sjúkling í vinnuherberginu. Á réttargeðdeildinni á Sogni eru rúm fyrir sjö manns. Nú eru þar átta sjúklingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×